mánudagur, júlí 02, 2007

Engin þynnka þrátt fyrir mikið djamm!

Það varð þá að við hjónin fórum út á lífið saman. Brúðkaupsafmælið var alveg meiriháttar. Við fórum út að borða á svaka flottan stað hérna sem heitir Den Gamle Kro og er síðan 1683. Frekar flottur staður, en verðið eftir því, svolítið íslenskt. En hvaða hvaða, það er ekki oft sem maður heldur upp á trébrúðkaup! Við völdum okkur fordrykki, Kir-Royal fyrir frúna og Bianco fyrir herramanninn. Í forrétt urðu fyrir valinu frönsk lauksúpa fyrir herrann og sniglar fyrir frúna, þar sem henni þótti alveg tilvalið að prófa þá í tilefni dagsins, þeir voru bara þrusugóðir. Aðalrétturinn var svo nautasteik fyrir herrann og svínalund með pestó fyrir frúna. Þessu var svo skolað niður með yndælu ítölsku rauðvíni. Að átinu loknu héldum við á vit baranna í leit að kaffi og konna og írsku kaffi. Það varð á vegi okkar á kaffi/skemmtistað sem heitir The Room. Þar sem skolli var hlaupinn í okkur var ekki til baka snúið þegar hingað var komið sögu og karlinn lallaði sér að barnum og sótti tvo Frosen strawberry margarita, sem í raun heitir eitthvað allt annað, en bragðast ennþá alveg obboð vel. Ekki varð púkinn minni eftir að hafa innbyrgt þessi herlegheit, svo við héldum í partý hjá árgangnum mínum í skólanum. Nokkuð gott eldhúspartý að undanskildum alltof mörgum sussum. Minnti helst á það þegar henda átti okkur Ingu Birnu niður af svölum fyrir óspektir í partý hjá ónefndri vinkonu okkar í gamla daga, hehehe... Að lokum var partýinu, sem einungis taldi sirka tíu manns, hent út og liðið þrammaði áleiðis í bæinn. Þar sem ég var að prufukeyra nýju fínu grænu skóna sem keyptir voru fyrir brúðkaupið í sumar, fékk ég blöðrur. Svo mín svipti af sér kvenleikahulunni, reif af sér skóna og trítlaði berfætt um bæinn. Helgi var svo sætur að sjá til þess að frúin stigi ekki á glerbrot, svo mér voru allir vegir færir. Reyndar hef ég haltrað síðan sökum blaðranna. En eins og gæinn sagði um daginn: Beauty is pain! Sem trúlega er helsta ástæðan fyrir heimilislegu fatavali mínu í gegnum tíðina. Hehehe...

Til þess að geta farið svona út á lífið þarf að koma gemlingunum einhvers staðar fyrir og Palli og Rósa voru svo vinaleg að taka hlutverk barnapíanna að sér. Takk fyrir það elsku vinir!

Elísabet, Gulli og afkvæmi flúðu hingað til okkar á laugardaginn úr tómu húsinu í Esbjerg. Í dag fóru þau tvö eldri í húsgagnaöflun upp til Árósa og skildu ungana eftir. Það er búið að ganga svaka vel að hafa þau, þau eru alger ljós. Frænkurnar eru alveg að springa úr hamingju yfir því að vera sameinaðar aftur, ef svo má segja, eitt og hálft ár er langur tími í lífi fimm ára gamalla skvísa! Eyþór Gísli er líka mjög meðfærilegur, og kallar mig mömmu, voða heimilislegt. Það er notalegt að fá að kynnast litlu frænkunum og frændunum aftur og nánar. Það er líka notalegt að fá hluta af fjölskyldunni hingað til Danmerkur.
Nú sefur liðið, svo ég ætti kannski að demba mér í draumalandið líka, enda bíður mín rúm fullt af karlmönnum, einum rúmlega eins árs, einum tæplega þriggja og einum á óræðum aldri.
Góða nótt allesammen!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tak for sidst!
Hef farið í þau mörg partýin í gegnum tíðina en ALDREI lent í því að farið væri að sussa á fólk kl.23.30

En það var stuð hjá okkur!
kv.Tinna

Nafnlaus sagði...

þú ert svo mikill snildarpenni... ég man nú eftir þessu ákveðna atviki í ákveðu partýi einnig þegar að ein vikona okkar var svo sniðug að skoða eldhúsvaskinn að innan..those where the good old times.. hlakka ekkert smá til að sjá ykkur kræst jeminn eini... þá verður nú hent góðri steik á grill og opnað nokkrar rauðar og konni og kaffi...
knús
þin hrönnsla

Nafnlaus sagði...

Til hamingju, til hamingju kæru hjón! Bráðfyndinn pistill og skemmtilegur - sérstaklega góður punktur í lokin þegar húsfreyjan skríður örþreytt upp í rúmið sem er fyrir yfirfullt af karlkyns íbúum heimilisins ;o) Skilaðu kveðju til nýbúanna í Danaveldi, þeirra Elísabetar og Gulla!

Hlökkum til að sjá ykkur í sumar,

Lísa, Gústi, Ásta Katrín og Ása Jenný

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með brúðkaupsafmælið. Þú þarft greinilega að gefa út góða ráð til okkar hinna sem eru ekki alveg með þetta á hreinu!! he he.
kv. Lilja