Við vorum að gera skattaskýrsluna áðan, eða réttara sagt byrjuðum á henni (enn vantar gögn). Þvílík endemis vitleysa og guð minn góður hvað þetta er leiðinlegt! Ég skil ekki fólk sem starfar sem endurskoðendur (þá er ég ekki að tala um fuglafræðinga). Endurskoðendur skilja mig ábyggilega ekkert frekar en ég þá, en það er allt önnur ella.
Þessi skattamál eru nú ekkert búin að ganga neitt sérstaklega smurt. Það hófst nú á því að þegar við loksins höfðum fengið veflykilinn sendan til tengdó uppgötvuðum við okkur (aðallega mér þó) til mikillar skelfingar að ég var ekki skráð sem maki Helga. Það var bara tvennt í stöðunni, annað hvort hafði minn elskulegur eiginmaður lokkað mig til að skrifa undir skilnaðarpappírana sofandi, eða ég var hreinlega dauð. Mér fannst síðari kosturinn líklegri þar sem ég trúi í fyrsta lagi ekki slíkri óiðjan eins og að skilja við mig upp á Helga, honum dettur það vonandi aldrei í hug, auk þess sem heimilisfólkið hefur títt látið eins og það heyri ekki í mér, sem væri að sjálfsögðu eðlilegt ef ég væri farin yfir móðuna miklu. Makaleysi Helga var þó ekki það eina sem rangt var í skattaskýrslunni heldur virðist svo vera sem öll þessi plögg og pappírar sem síðustu vikur okkar sem ekta Íslendingar fóru í að fylla út og koma á rétta staði hafi glatast, því hann var þann 1. des. 2005 skráður með lögheimili í Goðatúni 7 þrátt fyrir að vera í þjóðskrá skráður í Danmörku. Frekar undarlegt allt saman. Minn elskulegur tengdafaðir ákvað þó að kippa í spotta fyrir okkur og spjallaði aðeins við þá hjá skattinum og fékk þetta leiðrétt. Þannig að í dag erum við fjölskyldan öllsömul skráð í Goðatún 7. En saman þó.
Í þessu veseni öllu saman ákvað Helgi að athuga með Póstinn og fá úr því skorið hvers vegna lítill sem enginn póstur hefði borist til umboðsmanns okkar heima. Þá kom í ljós að við vorum enn skráð í Goðatúninu hjá þeim, okkur til ómældrar gleði, enda ekki eytt neinum tíma í að koma öllum pappírum, eins og áður sagði, á rétta staði rétt áður en við komum hingað út. Ég man meira að segja eftir þessum litla snepli sem ég fyllti út uppi á einhverjum Hálsi þarna í Reykjavíkinni. Ég var léttklædd sökum hita og sólin skein, ég var á jeppanum þeirra mömmu og pabba og fyllti út einhvern gulan (að mig minnir) pinkulítinn snepil. Það er ekki að undra að gögnin týnist ef þau eru ekki stærra en sem nemur nafnspjaldi!
Jæja nóg af rausi í bili.
fimmtudagur, mars 23, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Skattskýrslan, hef í vikunni verið að hjálpa Þóru og Kára með hana, m.v. fyrri tíma finnst mér þetta vera eins og hafa skipt úr trabant í benz því þetta er orðið svo létt og þægilegt svona á netinu. En pappírsmál fólks búandi í útlöndum geta verið mjög flókin og tekið langan tíma að koma þeim í fastan farveg. En þá er líka gott að eiga góða að heima á Íslandi.
samhryggist!! ekki gott að eiga við kerfið, hvað þá þegar maður er ekki á landinu...
Lísa skvís
Skrifa ummæli