Ég dáist að Dönum. Þeir eru vaknaðir fyrir allar aldir og komnir á hjólin eða út að skokka. Helgi mætir í vinnuna klukkan sex á morgnana þar sem hann er núna og þangað hjólar hann þessa dagana, sem ekki væri athugavert nema fyrir þær sakir einar að vinnustaðurinn er nokkuð langt frá heimilinu, en hann er náttúrlega bara hetja, maðurinn minn. Nema hvað, að þegar hann leggur af stað tuttugu mínútur yfir fimm þá er brjáluð traffík, bæði hjól og bílar. Heima var hann á ferðinni á sama tíma og einu bílarnir sem hann mætti þá voru löggubílar og einhverjir tveir í viðbót! Og hjól? Nei, ekki á klakanum klukkan hálf sex! Hins vegar er mikil umferð seint á kvöldin heima, ólíkt því sem hér gerist, hér er allt komið í ró um tíu-ellefuleytið.
Ekki nóg með að Daninn hjóli svo snemma dags, heldur getur hann gert nærri því hvað sem er á þessum farartækjum. Ég hef mætt þó nokkrum sem reykja "undir stýri" og í gær mætti ég tveimur guttum sem komu beint af Makkaranum borðandi sinn hvorn hamborgarann! Ég á í mesta basli að halda jafnvæginu með eitt barn aftan á hjólinu og skólabækur framan á því, hvað þá að ég gæti einbeitt mér að því að innbyrgða nokkuð á ferðalaginu, annað en súrefni.
Mér reynist það þrautinni þyngra að tileinka mér þessa annars góðu siði Danans, mér er það gersamlega ómögulegt að fara á fætur fyrir klukkan sjö.
mánudagur, mars 06, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Það á ekki af Helga að ganga, hér heima vann hann morgunvinnur og líka þarna, eins gott að fara snemma að sofa. Mér finnst þetta líka ótrúlegt hvað allt getur farið snemma af stað í útlöndum, í Aberdeen byrja engir skólar fyrr en kl. 9:00. Það finnst mér mjög skynsamlegt. Þú verður orðin listamaður á hjóli áður en vistinni líkur.
Ég er farin að sleppa höndum, í svona sirka fimmhundruðustu úr sekúndu í einu. Og já, Helgi er morgunhani og ég er nátthrafn, ég skil ekki enn hvernig við bjuggum blessuð börnin til ;)
Ég styð líka þessa stefnu að hefja skóladaginn ekki fyrr en klukkan 9, alls ekki fyrir klukkan 9!
Skrifa ummæli