sunnudagur, febrúar 17, 2008
Reiðin ólgar
Núna undanfarið hafa geisað miklar óeirðir hér í landi sökum endurprentunar á svokölluðum Múhameðsteikningum í dönskum fjölmiðlum. Í gær voru fyrirsagnir blaðanna á þann veg að ungt fólk hrópaði ókvæðisorðum að málfrelsinu. Stærsti hluti mótmælendanna í fyrrakvöld voru unglingar á bilinu 14-18 ára. Ungt fólk sem varla hefur hugmynd um hvað felst í málfrelsi, sem búið er að berjast fyrir í mörg hundruðir ára. Ungt fólk, sem sótt hefur menntun sína í þá sömu skóla og það nú leggur eld að. Ungt fólk sem litla sem enga virðingu ber fyrir náunganum og eignarétti hans. Hvað á það að þýða að brenna hluti, hús og bíla, kasta steinum að laganna vörðum og slökkviliðsmönnum sem reyna að sinna vinnu sinni, í nafni mótmæla? Trúlega bloggar stór hluti þessara sömu hópa og þeirra er að mótmælunum standa, flestir þeirra eru án efa online á hverjum einasta degi, spjalla saman á msn og senda hver öðrum sms og tölvupóst í tíma og ótíma. Trúlega gera fáir þessara krakka sér grein fyrir að málfrelsi er tjáningafrelsi. Frelsi til að segja það sem viðkomandi vill í þeim miðli sem hann vill, þar af leiðandi eru áðurnefndir miðlar hluti málfrelsis. Að sjálfsögðu skal ávallt höfð í heiðri sú regla að aðgát skal höfð í nærveru sálar og því má það liggja milli hluta hvort endurbirting teikninganna hafi átt rétt á sér eður ei. Hitt er annað mál að málfrelsið er okkur vestrænu þjóðunum mikilvægt, og það eru gildi, sem að mínu mati, við megum ekki glata, en þó verðum við að fara vel með tjáningarfrelsið. Oft má satt kjurrt liggja, eins og Fróði sagði í gamla daga. Við þurfum að uppfræða börn okkar um hve mikilvægt það er okkur að mega tjá okkur, án þess að þurfa að sitja af okkur fangelsisdóm fyrir vikið. Það er greinilegt að ungu mótmælendurnir gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þess.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Heyr, heyr!
Skrifa ummæli