mánudagur, apríl 14, 2008

Verkfall!

Þá er það ljóst. Það eru allir á leiðinni í verkfall... ja... ekki alveg allir, en nokkuð margir sem hafa eitthvað með okkur fjölskylduna að gera á þessum síðustu og verstu. Pædagogmedhjælper, sem er ómenntað starfsfólk (eða þeir sem ekki eru leikskólakennarar) á leikskólunum, meðal annars. Ljósmæður ætla sér líka í verkfall, en mér skilst að þjónustan við mig eigi ekki að skerðast, enda komin það langt á leið að varla megi við því. Trúlega verður mér þó kastað út af fæðingardeildinni, ef allt gengur vel, eftir sirka fjórar klukkustundir, ef krílið ákveður að birtast á meðan á verkfalli stendur. Það plagar mig trúlega lítið, enda vön þessu barnastússi, auk þess sem mér var farið að dauðleiðast á Hreiðrinu eftir að ég átti strákinn, þó var ég komin heim innan við sólarhring eftir að gaurinn kom í heiminn. Þetta bitnar kannski heldur á þeim sem eru að prófa þetta í fyrsta skipti.
Aðfaranótt miðvikudags skellur verkfallið á, með öllu því sem því fylgir. Ég tók einmitt við tveimur blaðsneplum í dag þar sem mér var á öðrum þeirra tilkynnt að ég gæti mætt með barnið í leikskólann meðan á verkfallinu stendur, en á hinum var mér tilkynnt að því miður gæti stofnunin ekki tekið við barninu sökum verkfalsins. Jamm og já! Eldra barnið verður að vera heima, þar sem elstu börnin eiga þess ekki kost að vera pössuð meðan á verkfallinu stendur (þau virðast greinilega vera komin svo langt á þróunarbrautinni, að þau geta alveg séð um sig sjálf, eða það sem líklegra er; þau er í flestum tilvikum auðveldrara að passa en þau yngstu), en drengurinn er velkominn, þar sem hann er jú bara þriggja og hálfs ennþá! Sökum aðstæðan verð ég því að drífa mig í gang með ritgerðina, sem á að skila 10. júní, á morgun! Ekki seinna vænna, enda löngu kominn tími til að gera eitthvað í þeim málum.
Svo er bara að krossa fætur þar til verkfallið er yfirstaðið.

Engin ummæli: