þriðjudagur, apríl 29, 2008

Þrír dagar til stefnu, ja eða rúmar tvær vikur...

Enn er verkfall á leikskólanum, svo Bríet Huld hefur ekkert farið í leikskólann í tvær vikur núna og það endar í tæpum þremur þegar hún loksins fær leyfi til að mæta á mánudaginn. Þá er ekki þar með sagt að allt sé fallið í ljúfa löð, ó, nei. Því ungi herramaðurinn á heimilinu fær þá að dveljast heima með múttunni skrúttunni. Yndislegt alveg, og mamma sem ætlaði að vera búin með ritgerðina áður en þriðji gemsinn bættist við. Það er þó ekki öll von úti enn, enda getur meðgangan dregist á langinn, þó svo að settur dagur sé núna á föstudaginn.

Annars er fínt að frétta. Vorið er komið og grundirnar gróa, þó svo að botninn á línunni eigi síður við hér í flatlendi Danans. Sannkölluð sumarblíða búin að vera síðustu daga, þó svo að rigni í dag. Enda veitir ekki af þar sem það þarf að vökva gróðurinn af og til og jafnvel taka til innifyrir, það er gersamlega ómögulegt að framkvæma þegar veðrið er blítt og fallegt. Þá hlammar maður sér heldur út í sólina og skellir í sig svona eins og einum ís og svolitlu ístei eða álíka svalandi drykk. Notó, spotó.

Skvísan á heimilinu er farin að færa sig hratt upp á skaftið núna. Þannig er að við hjónin notum þessa svokölluðu töfrar, einn, tveir, þrír aðferð við uppeldið á börnunum, sem virkar alveg þrusuvel. Það veit enginn hvað gerist ef talið er upp að þremur og enginn hlýðir ennþá, en við finnum upp á einhverju ef börnin taka upp á þeim ósið að hætta við að hlýða. Daman hefur undanfarið notað þessa aðferð á hann bróður sinn með miklum og góðum áhrifum. Hann hlýðir öllu sem hún segir þegar hún byrjar að telja. Að sjálfsögðu er búið að reyna að brýna fyrir henni að þetta sé eitthvað sem fullorðna fólkið á að segja, en það er óhætt að segja að það læðist fram örlítið bros hjá okkur þegar við heyrum hana byrja að telja. Hún fær stórt prik fyrir áræðnina og úrræðið að taka upp á þessu, ein síns liðs. Þau eru snillingar, blessuð börnin.

Við fórum svo í þessa líka fínu og flottu fermingarveislu á sunnudaginn hjá henni Silvíu Sól. Hún var að sjálfsögðu alveg obboð fín og sæt og foreldrarnir, auðvitað, líka. Eins og við var að búast voru veitingarnar ekki af verri endanum og ég þess guðslifandi fegin að geta ennþá borið fyrir mig óléttunni og hámað í mig að vild! Það er aldrei slæmt að fara í veislu til Bæba og Salvarar. Börnin komust heldur betur í feitt þegar kaffið var fremreitt, þar sem inn á milli allra kakanna leyndust kleinur. Uppáhaldið. Nammi, namm... Í veislunni, sem að mestu fór fram út í garði, sökum veðurblíðunnar, var margt um manninn. Það var gaman að hitta fullt af fólki sem maður hittir sjaldan eða hefur jafnvel aldrei hitt, en heyrt talað um. Steini, Hanna Lára, Þórdís og Arna Björg voru að sjálfsögðu líka í veislunni og það var þrusugaman að hitta þau. Reyndar ætlaði frúin í Esbjerg að koma með gemlingana líka, en komst ekki sökum flensufaraldar á heimilinu, við vonum að þau fari að ná sér, blessuð börnin þar.

Best að nýta þessar mínutur sem ég hef þar til ég sæki karlinn í ritgerðarsmíði. Þar til næst...

Engin ummæli: