sunnudagur, maí 11, 2008

Enn er krílið í bumbu

Noh... þetta barn virðist ætla að vera jafn þrjóskt og restin af fjölskyldunni. Það dvelur enn í bumbu og sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Nú er komið að kvöldi níunda dags framyfirgöngu og móðirin orðin heldur spennt yfir því að fara að berja nýja krílið augum, sem og flestir í kringum hana. Auk þess sem fætur hennar vilja gjarnan fara að losna við alltof mikinn bjúg sem myndast hefur undanfarnar vikur.

Til að fá tímann til að líða að barnsburði, þá brugðu hjónakornin á heimilinu á það ráð að hefjast handa í garðinum fagra, með mikilli og góðri hjálp Alla og Elísabetar. Svo nú er búið að skella einu stykki kofa upp úti í garði, bak við rólurnar, klippa slatta af runnum og trjám, sem og stinga beðin og grisja aðeins. Frábært verk. Það var þó ekki laust við það að húsmóðirin ætti mjög bágt með það að sitja á sínum flata botni á meðan vinnumennirnir voru iðnir við kolann. Hún stalst því til þess að dunda sér aðeins með fólkinu. Börnin eru hin sælustu með kofann og daman er búin að þrífa hann að innan að minnsta kosti fjórtán sinnum síðan síðasti nagli var barinn í herlegheitin. Regla eitt er líka sú að allir sem inn í kofann fara, fara úr skónum! Já, það er gott að húsmóðurandinn hellist yfir mann þegar maður er svona ungur. Það er bara spurning hve langur tími liður þar til allar reglur eru foknar út í veður og vind. Gefum þessu viku.

Veðrið er líka búið að dúlla við okkur hérna í DK. Börnin eru vatnslegin eftir busl í sundlauginni og vatnskeppni við foreldrana. Allir skemmta sér hið mesta og þess á milli er sólin sleikt. Mmmmm...

Sökum góðra vina áttum við hjónin ljúfa kvöldstund í gærkvöldi, þegar börnunum okkar var svotil rænt af okkur af Alla og Kristrúnu annars vegar og Palla og Rósu hins vegar. Við skelltum okkur á hið margrómaða veitingahús Jensens buffhús og nutum góðra veitinga í veðurblíðunni, síðan var ferðinni heitið í göngutúr í Fruens böge og þaðan í bíó að sjá hina dönsku Flammen og Citronen. Þetta var svaka notó, enda sjaldan sem slíkt er gert hér á bæ. Takk fyrir þetta, kæru vinir. Þið eigið inni hjá okkur.

Í kvöld þurftum við heldur ekki að hafa áhyggjur af eldamennsku þar sem við aðstoðuðum Arnar og Heiðu við niðurrif háfættrar gimbrar sem eitt sinn beit íslenskt gras. Nammi namm... gott íslenskt lambakjöt með massa af hvítlauk og koníaki og tilheyrandi meðlæti. Kvöldið endaði þó ekki eins vel og það byrjaði, þar sem Alexander, eldri sonur Arnars, lenti í því að ekið var á hann á hjólinu. Sem betur fer var drengurinn með hjálm, því hann fékk fína flugferð, yfir bílinn að mér skilst. Enda var bíllinn heldur skemmdur, bæði framrúða og -ljós eftir áreksturinn. Sjúkrabíll var kallaður á staðinn, sem flutti drenginn á sjúkrahúsið til frekari aðhlynningar og tékks. Sem betur fer voru meiðslin minniháttar, og ekkert kom út úr myndatökum, en honum verður haldið á sjúkrahúsinu yfir nóttina.

Eigið góðan pinse!

Knús...

2 ummæli:

Ágústa sagði...

En hvað þið eruð heppin að eiga svona notaleg kvöld áður en litla nautið mætir á svæðið ;)

Gott að strákurinn slapp lítið meiddur úr slysinu.

Hlakka til að hitta ykkur eftir ekkert svo langan tíma.

Kv. Ágústa

Nafnlaus sagði...

Við erum hérna laumuaðdáendur sem kvittum sjaldan/aldrei. Erum búin að sjá og fylgjast með sauðburði svo nú bíðum við eftir þínum burði! Gangi þér vel og þeim sem með þér verða, við bíðum spennt.
Kveðja, Þorgerður, Sævar og co.