miðvikudagur, júlí 05, 2006

Í sól og sumaryl...

Vá, hvað það er búið að vera gott veður hérna hjá okkur í baunalandinu! Hitinn er búinn að vera þvílíkur að maður hefst varla við úti, en maður lætur sig að sjálfsögðu hafa það að steikja sig fremur en að láta það spyrjast út að maður flýji sólina! Nei, að sjálfsögðu á maður að njóta hennar í botn. Þó svo það sé nú hægt að deila um það hvort enn sé hægt að tala um að njóta hennar þegar allir svitakirtlar líkamans hafa vart undan og maður dæsir og blæs úr nös þrátt fyrir að sitja límdur við plastRúmfatalagersstólana. En þráinn er svo gífurlegur að inn verður ei farið, nema brýna nauðsyn beri við.

Við fjölskyldan nutum góða veðursins í gær og skruppum aðeins á ströndina. Þvílíkur unaður að flatmaga á teppi í sandinum og skola af sér svitann í ylvolgum sjónum. Börnin nutu þessa líka út í ystu æsar, enda finnst nú varla stærri sandkassi en sjálf ströndin! Liðinu var svo skipað að hátta sig úti í garði þar sem húsmóðirin skrúbbaði gólf kvöldið áður og hefur það ekki í hyggja að gera það aftur í bráð! Sjáum svo til hvernig það gengur ;)

Á morgun koma svo grislingarnir frá Sønderborg og ætla að dvelja hér hjá okkur þar til á sunnudaginn. Foreldarnir ætla að fara og berja Robbie Williams augum. Þau eru meira að segja svo heppin að þau gista á sama hóteli og kauði, sem að sjálfsögðu skipti um hótel þegar hann frétti af því að þau ætluðu ekki að gista á sama hóteli og hann. Hann vildi að sjálfsögðu vera eins nálægt Íslendingum og hægt var, álsi honum enginn. Enda afburðarfólk upp til hópa og stuðboltar miklir. Spurning hvort hann verði líka í brúðkaupinu sem Guðrún og Bogga eru að fara í.

Síðasta föstudag hittumst við Logopædi-nemar og fengum okkur í gogginn og í aðra tána eða svo.

Eigið gott fótboltakvöld!


Hópurinn saman kominn, fámennt en góðmennt!

Engin ummæli: