þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Af einkunnum, skírn, ferðum og saltkjöti

Jæja já, eins og flestir vita erum við búin að kaupa ferð heim til Íslands í sumar. Haldið verður af stað héðan frá DK með vél flugfélagsins Icelandexpress þann 3. ágúst, sem er fyrsti í þjóðhátíð. Að níu dögum liðnum verður heimilisfaðirinn sendur til baka til Danaveldis en restin ætlar sér að dvelja tíu dögum lengur í faðmi og vellystingum fjölskyldu og vina á klakanum. Húrra, húrra!
Annars er lítið annað að frétta héðan úr stórveldinu Danmörku. Enn bólar ekkert á síðustu einkunninni hjá húsmóðurinni, svo ekki láta námslánin af sér spyrjast. Von og óvon um að hafa staðið eða fallið er því enn að hringlast í mallakútunum á eldra hollinu hérna á heimilinu. Samkvæmt fréttum frá skrifstofu skólans má ég fyrst búast við blessaðri dómsuppkvaðningunni um miðjan marsmánuð. Þá verða liðnar sex vikur síðan ég skilaði ritgerðinni. Mikið hlýtur hún að vera góð! Fyrst það þarf að lesa hana aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og...!
Að öðrum málum, Hrönn vinkona og karlinn hennar (sem er enn bara vonabí) skírðu gullfallegu dóttur sína á sunnudaginn, hún fékk nafnið Ísabella Þóra, sem passar mjög vel við þar sem Hrönn er, eftir margra ára dvöl á Spáni, hálf spænsk og útlit litlu rúsunnar er mjög í takt við nafnið, ja eða nafnið í takt við dömuna ætti ég heldur að segja. Hún líkist þó meira pabba sínum, að mínu mati. Gullfalleg stúlka, Ísabella Þóra, og Hrönn að sjálfsögðu líka! Gott ef Haddi er nokkuð svo slæmur sjálfur. Til lukku með þetta kæru vinir!
Að enn öðru. Rétt áður en þessi orð voru pikkuð spjallaði ég við hana Möggu Ástu hans Sigga Finns og við keyptum lestarmiða hingað til Óðinsvéa. Ég pantaði og hún borgaði. Þau ætla nefnilega að kíkja hingað, fjölskyldan úr Hafnarfirðinum, eftir tvær vikur og dvelja hjá okkur í nokkra daga. Gaman, gaman. Reyndar eigum við kannski von á honum Janusi sem var hjá okkur í tvær vikur í haust þá og þegar. Það verður heldur betur gaman fyrir krakkana, enda voru þau eins og mý á mykjuskán síðast þegar hann var hérna. Elísabet og Gulli ætla líka að kíkja á okkur núna í mars ásamt Eyþóri Gísla (Sesselja fær að vera hjá Máney á meðan), þau verða reyndar bara hjá okkur í u.þ.b. sólarhring þar sem þau ætla að kíkja á húsnæði og fleira skemmtilegt í Esbjerg og nágrenni, svona áður en þau flytja til okkar í sumar! Það verður notó að fá einhvern úr fjölskyldunni hingað. Enda ekkert annað en sjálfsagt og réttlátt að við fáum í það minnsta eitt systkini úr systkinahópnum hans Helga, þau eru nú sjö! Um páskana ætlar hún Andrea litla systir (sem að mér skilst sé ekkert sérlega lítil lengur, er einmitt í fyrsta ökutímanum núna!) að kíkja á okkur. Hún ætlar að taka þetta með trompi og vera í heila tíu daga. Hún kemur á afmælisdaginn minn, svo við ákváðum að við skyldum sækja hana til Köben og eyða deginum þar, fara í Kristjaníu og eitthvað skemmtó. Áðan fengum við svo upphringingu þar sem athugað var hvort við gætum hýst litla sæta fjölskyldu úr Maríubakkanum, ættaða úr Eyjum og úr hálfellefuhreppnum á Snæfellsnesi, í vikutíma í lok apríl. Jáhá, að sjálfsögðu! Svo vonandi kaupa Gummi og Solla farið sem fyrst.
Við hlökkum til að hitta ykkur öll!
Knúsar til allra,
Addý paddý.

Ps. Takk kærlega fyrir saltkjötið og baunirnar, Steini og Hanna! Ummm... þetta var æði og lyktin á heimilinu eftir því ;)

4 ummæli:

Heiðagella sagði...

jahá..........

Nafnlaus sagði...

Vá, það þið eigið von á svona einum og einum sé ég, er ekki ráð að byggja sumarbústað í garðinum svo fleiri geti komið. En auðvitað er frábært að fá gesti, þið búið á næst besta stað fyrir heimsóknir....væri sennilega meira að gera í Köben......

Nafnlaus sagði...

Já það er gestkvæmt hjá ykkur hjónunum,góð hugmynd hjá Gillí með bústaðinn í garðinum, Gústi er einmitt búinn að byggja "bústað" í okkar garði. Ykkur er velkomið að gista þegar þið komið í sumar hehehe. Nei bara grín ;o) En frábært að heyra að þið ætlið að kíkja heim í sumar - hlökkum öll til að sjá ykkur!

Lísa

Nafnlaus sagði...

Það er bara gestkvæmt á Bláberjaveginum, gaman, Vildi að ég væri líka á leiðinni, en ég sé ykkur pottþétt í sumar. Vonandi færðu svo einkunnina sem fyrst, svo þið getið hætt að borða hrísgrjón;)

Hlakka til að sjá ykkur í ágúst

kv Inga Birna