sunnudagur, júní 24, 2007

Helgarsprell

Ég ætti kannski að taka mér þetta til athugunar og drífa mig í að skrifa þessa blessuðu ritgerð!

Hrútur: Drattastu úr sporunum! Þú þarft að vinna þér inn einhverja peninga. Ef það er svona agalega leiðilegt, reyndu þá að verðlauna þig eftir árangri.

Ég er allavega búin að byrgja mig vel upp af íslensku sælgæti núna eftir 17. júní-hátíðarhöldin sem fram fóru í dag. Það gæti þá verið verðlaunin sem ég veiti mér. Ein kúla eftir hverja skrifaða setningu, ja eða hvert skrifað orð. Hljómar það ekki vel?

Fór annars út á lífið í gær. Ótrúlegt nokk. Skaust í Fruens Bøge ásamt fjölskyldunni. Þar var verið að brenna norn á báli í tilefni Skt. Hans aften, sem er í dag. Þarna var mikið um að vera, fullt af fólki, tónlist og risa bál. Þarna hittum við Palla, Rósu, Kristrúnu, Alla, vinafólk þeirra og gemlingana alla. Krakkarnir nutu sín í botn og minntu mann helst á þegar maður var sjálfur að göslast í brekkunni á kvöldvökunum á Þjóðhátíðinni í gamla daga.
Eftir gamanið í Fruens Bøge var ég göbbuð á smá bæjarrölt ásamt Kristrúnu og Dóru, vinkonu hennar frá Íslandi. Við mæltum okkur mót við Heiðu, Arnar, Ragnhildi og Mána í bænum og röltum með þeim um skemmtistaðina hér í bæ. Þetta var bara frekar ljúft, að undanskildum tónunum á Frank A. Þar réð teknótónlistin ríkjum og þeir sem mig þekkja vita að ég er ekkert sérlega hrifin af sama endalausa trommusólóinu. Trúlega hefði ég verið sú fyrsta á dansgólfið ef um hefði verið að ræða snillinga á borð við Frank Sinatra, Michael Jackson eða Tinu Turner! Kallið mig gamaldags, en ég segi að ég sé mjög þroskuð! Hehehe... Ég sagði því skilið við liðið og hélt heimleiðis með smá pítsuátstoppi, alveg eins og í gamla daga. Svaf svo til hádegis ásamt ungunum mínum í dag! Segið svo að uppeldið sé ekki gott!

Njótið dagsins.

Engin ummæli: