mánudagur, júní 18, 2007

Hvaðan, hvert og hvenær?

Ég hef oft velt fyrir mér hvaðan ég sé. Ég er fædd í Vestmannaeyjum og alin þar upp þar til ég varð sjö ára. Í uppeldinu var mikið hamrað á því að við fjölskyldan værum Eyjamenn og ekkert annað. Eftir að við fluttum upp á land bjuggum við í Vesturberginu í Breiðholti þar til ég varð 10 ára, þá lá leiðin í Mosfellsbæinn. Að þremur árum liðnum hélt fjölskyldan aftur áleiðis í Breiðholtið, nú í Seljahverfið, þar sem ég bjó þar til ég ruddist inn á hann Helga minn fyrir örfáum árum síðan. Á grunnskólaaldri stundaði ég sem sagt nám við fjóra skóla, Barnaskólann í Vestmannaeyjum, Hólabrekkuskóla, Varmárskóla í Mosfellsbæ og Seljaskóla. Framhaldsskólarnir voru tveir; Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og háskólarnir eru nú þegar orðnir tveir! Já, kannski ekki furða þar sem langafi minn, sem ég er skírð eftir, var kallaður Gaui flakkari.

Allavega, ef ég yrði spurð að því í dag hvaðan ég væri, efast ég um að ég myndi standa stolt upp og segja "frá Vestmannaeyjum", þó mig langi til þess. Mér finnst ég ekki geta það lengur, enda er ég varla þaðan þó ég sé bæði fædd þar, ásamt fólkinu mínu langt aftur í ættir, og uppalin til skólaaldurs. Ég ber þó ákveðnar, sterkar taugar til Eyjanna, sem vonandi aldrei slitna.
Í Mosó kynntist ég mörgu góðu fólki og það kom í ljós að smábæjarfílingurinn átti stórvel við mig. Þar komumst við í nánd við náttúruna, fórum niður í fjöru og móa að leika, í hesthúsin að skoða fákana og fram eftir götum, eitthvað sem ekki stóð til boða í Efra-Breiðholti.
Breiðholtið telst þó trúlega til minna æskustöðva (eins klént og það er) því þar eignaðist ég mínar bestu vinkonur og vini. Í Breiðholtinu var ég unglingur og síðan fullorðin.

Allir þessir staðir og fólkið sem ég kynntist þar hafa sett mark sitt á mig. Því held ég að það eina sem ég geti sagt næst þegar ég er spurð að því hvaðan ég sé, er að ég sé Íslendingur, í húð og hár!

Engin ummæli: