þriðjudagur, mars 11, 2008
Öskubakki á klósetti
Ég hef aldrei skilið hvers vegna það finnast öskubakkar á salernum. Ég veit svosem ekki hvort þeir finnist einungis á kvennmannssalernum, eða hvort þeir séu líka til staðar hjá körlunum. Mér datt svona sem snöggvast í hug að kannski væri þetta eitthvað sérætlað skvísunum þegar þær hópast saman á klósettið eftir einn eða tvo kalda, til að spartla á sér andlitið. Spurning, spurning. Það skrýtna er þó að ég sá einn öskubakka á klósettinu á staðnum þar sem ég er í starfsnámi þessa stundina. Þessi tiltekna bygging tilheyrir kommúnunni og trúlega illa séð að fólk sé undir áhrifum áfengis í vinnunni og í dag er varla farið fram á annað en að fólk andi að sér "ferska loftinu" utandyra. Svo kenning mín er greinilega fallin um sjálfa sig. Reyndar eru danskar skvísur algjörir snillingar í því að eyða ómældum tíma á salerninu og gætu þar af leiðandi fengið sér eina rettu í leiðinni. Þær dömur sem ég þekki eru alltaf jafn hissa þegar maður drífur sig að ljúka sér af og kemur sér fram í snarhasti, allt á mettíma, að þeirra mati. Þó svo að þetta sé okkur íslensku stöllunum eðlislægt. Kannski við Íslendingar flýtum okkur með allt? Spurning, spurning.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jú, það eru líka öskubakkar á karla salernum. Ég hef séð það hérna. Líka hjá karlmannseinstaklingi, heima hjá honum.Þar hefur hann komið fyrir hangandi öskubakka inná salerni. Viðbjóður !!
Skrifa ummæli