miðvikudagur, mars 26, 2008

Barnaguðsþjónustur og kirkjulokanir

Ég las á www.berlingske.dk rétt áðan að loka eigi tíu kirkjum í kóngsins Köben innan skamms. Reyndar á ekki alveg að loka, heldur nýta kirkjurnar til annars en guðsþjónustu. Mér finnst þetta stórfurðulegt. Reyndar finnst mér það ekki beint furðulegt að það sé verið að loka kirkjum sökum dræmrar guðsþjónustusóknar, heldur að ekki sé neitt annað gert í málinu áður en kirkjunum er lokað. Mér til mikillar undrurnar, og satt að segja svolítillar skapraunar, komst ég að því er ég flutti hingað til landsins, að það væru ekki barnaguðsþjónustur, eða sunnudagaskóli, eins og heima á Fróni, í kirkjum landsins. Reyndar eru einhverjar slíkar í sérkirkjum, eins og t.d. hjá hvítasunnusöfnuðinum hérna og svona, en ekki í henni almennu dönsku folkekirke. Þetta þykir mér stórfurðulegt, þar sem, að mínu mati, eina leiðin til að laða unga fólkið að kirkjunum er að hafa eitthvað í gangi þar sem passar fjölskyldufólkinu, "því hver sá er ekki tekur við guðsríki eins og barn mun aldrei inn í það koma" segir nú bara í skírnarræðunni okkar Lútherstrúarmanna. Því þykir mér það skrítið að það sé ekki stefnt að því að ná fólki inn í kirkjuna fyrr en á fermingaraldri. Ég hef prófað að senda Hjallesekirke tölvupóst þessa efnis, svona til að athuga hvort ekki væri einhver starfssemi fyrir okkur fólkið, sem á börn er truflar heldur mikið hina venjulegu guðsþjónustu, með væli, pirringi og hlaupum, en engin svör hafa mér borist. Ekki er það nú kirkjunni til framdráttar. Reyndar datt okkur Heiðu í hug hérna fyrir sirka einu ári síðan, að stofna einskonar sunnudagsskóla fyrir Íslendingana hér í borg. Fá einhvern íslenskan prest til liðs við okkur, sem kannski gæti aflað okkur efnis tengt trúnni og kirkjunni. Spurning hvort maður eigi ekki bara að skella sér í djúpu laugina og hafa samband við séra Pálma eða hann séra Íslendingaprest, sem ég man ekki alveg hvað heitir þessa stundina :S
Svo er það spurning hvort við Íslendingar þurfum að taka yfir kirkjurnar til að koma þessu kannski áleiðis, þetta er náttúrlega ekkert annað en sölumennska! Og ég sem er enginn sölumaður! Spurning að sleppa því að tala við sérana og snúa sér bara beint að Björgólfsfeðgum!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Addý mín, þú þarft ekkert annað en geisladiskinn hennar Hafdísar Huldar, Englar í ullasokkum til að halda almennilega fræðslu. Þessi diskur er mjög góður og textarnir góðir. Hún samdi lögin fyrir sunnudagskóla sem hún sá um í london. Þú kannski rúllar þessu upp og ferð að gefa út disk!!!!Gangi ykkur annars vel Ingibjörg

Nafnlaus sagði...

Alltaf getur maður treyst á skemmtilega lesningu hjá þér þegar maður vill láta hugann reika.

Eigðu nú notalegan seinnipart meðgöngunnar og njóttu þess að hafa svona gremlins inni í þér.

Með kveðju frá Tjarnarbrautinni.
Milla.

Ágústa sagði...

Ég býð mig fram sem aðstoðarmanneskju í sunnudagaskólanum ykkar Heiðu þegar ég verð komin út :)

Nafnlaus sagði...

Já ég hugsa að ég mæti til ykkar í sunnudagaskólann ;) Þetta er alveg hreint undarlegt að það skuli ekki vera barnaguðsþjónustur..

Þú vilt ekki bara skella þér í Guðfræðina og gerast Séra Addý ?
Það yrði nú ekki amalegt.
Knús héðan úr Seden Syd þar sem yngsti fjölskyldumeðliurinn er loksins að koma til.
Love ya