laugardagur, apríl 01, 2006

Afmæli

Í dag eru liðin 28 ár frá því að ég leit heiminn fyrst augum. Flestir hefðu trúlega haldið að þá hefði himinninn verið heiður, sólin yljað landanum og blómin verið útsprungin, en sú var nú ekki raunin. Mér skilst á henni móður minni, sem er minn helsti heimildamaður varðandi fæðingu mína, að veðurguðirnir hefðu leikið öllum illum látum, birgt fyrir sólu, hellt úr fötu og sagt eitt stórt "ATSJÚ!". Það var sem sagt rok og rigning daginn sem ég fæddist.
Á þessum árum hefur margt gerst. Það stendur án efa uppúr að eiga heila fjölskyldu útaf fyrir mig! MÍNA fjölskyldu. Auk þess sem margt yndislegt og skemmtilegt fólk hefur orðið á leið minni í gegnum reynsluskóginn. Takk fyrir það!
Í tilefni þessa dags ákvað ég að bjóða nokkrum vinum hérna í útlandinu til kaffisamlætis, enda komast þeir næst því að vera fjölskyldan okkar hérna. Í kvöld er svo þrusuafmælispartý hjá þremur píum hérna í DK á áætlun.

Ég vil líka óska henni Söru Líf, litlu frænku minni, til hamingju með daginn!

Þegar maður á afmæli á maður að vera fínn, ekki satt?! Því brá ég á það ráð að kíkja á eina hárgreiðslustofuna hér í bæ. Fyrir valinu varð hárgreiðslustofan Afrodita sem liggur lengra upp í bæ. Ég valdi hana sökum verðlags og þess að hún Heiða pæja fór þangað í síðustu viku og kom svona ægi fögur þaðan. Ég fékk tíma hjá nemanum á staðnum, enda eina lausa þegar ég pantaði tíma. Mitt mottó er nefnilega "betra er seint en aldrei". Neminn var lítil sæt stelpa af indversku bergi brotin. Hún stóð sig bara asskoti vel. Hún fékk reyndar að hafa frekar frjálsar hendur, enda er ég ekki vön því að ákveða sjálf hvernig hárið á að vera. Ég hef sjaldan haft ákveðnari hugmyndir um það en þær hvort það eigi að verða styttra eða lengra. Auk þess sem þær fáu sem ég hef þegar ég mæti á staðinn gleymast þegar fingur klipparans hefjast handa. Ég held þetta sé einhver töframáttur sem þjálfaður er upp í hárgreiðslunáminu. Allavega, hún fékk semsagt nokkurn veginn að ráða hárinu sjálf, þessi unga dama. Mér brá nú nokkuð þegar liturinn kom í ljós sem hún setti í. Rautt. Ég sá ekkert nema rautt. Svo til að bæta gráu ofan á svart (eða appelsínugulu ofan á rautt) setti hún tvo risastóra ljósa lokka á sitt hvorn staðinn á kollinum. Úfff... Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við, en ákvað að sitja aðeins lengur á honum stóra mínum og sjá hvernig heildarútkoman yrði. Þegar daman hafði þurrkað og sléttað hárið og sett eitthvað klístur í, leit þetta bara ekkert svo hrikalega illa út! Þetta var satta að segja bara nokkuð fínt. Hárið varð ekkert rautt, bara með smá rauðum blæ, og lokkarnir tveir (annar að framan og hinn í hnakkanum) komu bara svona þrusuvel út. Það er nauðsynlegt að breyta til. Svo er það líka svo skemmtilegt! Ég er bara ansi sátt við þessa heimsókn norður fyrir hraðbraut, þó svo að herlegheitin hafi tekið hálfan fjórða tíma.

Jæja, ég ætla að fara og skella í eina köku fyrir fólkið.

Megið þið eiga góða daga.

Kveðja,
Addý afmælisbarn :)

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Innilegar hamingju óskir með daginn skvísa mín, vonadi áttu góðan dag. kv. kristrun og co jyllands búar.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með daginn Addý mín og mikið held ég að þú sért smart um hárið. Þú ert líka þannig týpa að eitthvað geggjað passar þér vel. Hafðu það súper í dag.

Nafnlaus sagði...

Til haminngju með daginn frænka...
Hér erum við að undirbúa 3. ára afmæli...ekki 28 ára!!!

Kærar kveðjur og takk fyrir kveðjuna til Söru.

Eigið góðan dag!!
Sæþór og co..

Guðrún sagði...

Innilegar hamingjuóskir með daginn Addý min!!! Hafðu það sem allra best i dag og mundu það að við yngjumst bara með árunum!!! ;-)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið í dag. Hvernig væri svo að skella einni mynd inn á netið af herlegheitunum... þ.e. hárínu!!
kv. Lilja

Nafnlaus sagði...

Hún á afmæli í dag - hún á afmæli í dag! Jei til hamingju snúlla mín. Vonandi áttirðu góðan dag.

Langar svo að sjá hárið á þér...oh.
Knús og afmæliskoss!

Nafnlaus sagði...

sammála....myndir væru vel þegnar

Nafnlaus sagði...

Hæhæ Addý mín. Innilega til hamingju með afmælið....
Bestu kveðjur frá fjölskyldunni í Skotlandi....!!!

Addý Guðjóns sagði...

Já, hver veit nema það verði sett mynd af hárinu inn á síðuna hjá krökkunum. Sú mynd verður þó ekki tekin í dag sökum heilsuleysis frúarinnar ;)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn í gær Addý - ég komst ekki á netið að óska þér til hamingju í gær því hér var heljar barnaafmæli allan daginn og langt fram á kvöld. Þvílíkt fjör og gaman svo við héldum í raun upp á daginn þinn í leiðinni held ég bara ;o) Ég vona að þú hafir skemmt þér vel í gær og ég segi eins og hinar, dauðlangar að sjá útkomuna úr hárgreiðslunni!

Lísa og co.

Nafnlaus sagði...

Til lukku með daginn í gær elsku frænka,vona að þú og þið öll hafið átt góðan dag, og ég tek undir með öllum hinum að ég er spennt að fá að sjá á þér hárið dúllan mín.
koss og knús til ykkar allra,frá frænkubeibunum í Engihjallanum.

Nafnlaus sagði...

til lukku með daginn í gær ljúfan og takk fyrir kökuparty og party og skemmtilegar stundir
Kys
Heiðagella

Nafnlaus sagði...

Hei beib ég sendi sms til Helga vonandi að þú hafir fengið kveðjuna og knúsið frá mér... ef ekki þá aftur til hamingju með daginn og endilega sendu mér sms með númmerinu þinu...
Knús Hronnsla

Nafnlaus sagði...

Hæ skvís...

kíki reglulega á bloggið þitt, enda afbragðsgóður penni á ferð:) Til lukku með daginn þinn um daginn... betra er seint en aldrei ( var í bústað og gat ekki skrifað þá, en mundu sko vel eftir þér:))
Knúsar á gengið þitt...og auðvitað ÞIG!