Í gær hefði orðið sjötug elskuleg amma mín, Ellý Björg Þórðardóttir. Hún var sannkölluð kjarnakona. Þær eru ófáar minningarnar um hana sem ég varðveiti með mér. Ég minnist hennar helst á því hve notalegt það var að koma til hennar og afa Hreins á Háaleitisbrautina. Þar fékk ég t.a.m. að sortéra gamalt og ónothæft snyrtidót frá hinu nýrra. Það var oft stútfullur poki sem ég tók með mér heim, mömmu til ómældrar ánægju! Við amma áttum líka leyndarmál. Amma bar nefnilega hártopp. Dag einn þegar ég var í pössun hjá henni var hún að gera að toppnum og ég, barnið sjálft, skildi hvorki upp né niður í því hvernig í ósköpunum hún fór að því að taka af sér hárið. Hún sagði mér þá leyndarmálið sem ég lofaði að segja engum frá. Ég man ekki hve gömul ég var þegar þetta átti sér stað, en leyndarmálinum hélt ég út af fyrir mig þar til ég uppgötvaði, mér til skelfingar, að þetta vissu allir. Þá var ég farin að nálgast tvítugt.
Þegar við eldri systkinin fengum að gista hjá þeim afa og ömmu var hápunkturinn að fá að sofna á dýnum sem amma kom fyrir fyrir framan sjónvarpið, enda vissi hún hve mikilvægt það er að láta fara vel um sig fyrir framan kassann. Það er óhætt að segja að amma hafi verið einn dyggasti stuðningsaðili sjónvarpsdagskránna hin síðari ár.
Síðustu ár ömmu fékk ég að njóta nánari samvista með henni í kór Bústaðakirkju. Það var æðislegt! Amma naut mikilla vinsælda og hvar sem hún fór var eftir henni tekið. Það átti líka við um veru hennar í kórnum. Hún var einn af stólpunum þar. Búin að starfa með honum í áratugi, bæði með kórnum og Guðna heitnum Guðmundssyni, organista. Það varð því svolítið tómlegt á kóræfingunum eftir að hún amma lagði söngstarfið á hilluna. Það var svo notalegt að geta hallað sér upp að henni og fengið ráðleggingar þegar ég náði ekki erfiðustu alt-línunum. Hún kunni alla sálmana og fjöldan allan af sönglögum og kórverkum, hver sem höfundurinn var. Ef hún kunni ekki alt-línuna eða fannst hún leiðinleg eins og hún var, bjó hún einfaldlega til nýja! Ef hún kunni ekki textann, þá trallaði hún bara! Hún reddaði sér. Hún gerði þetta svo listavel að hún komst upp með þetta. Tónlistin var henni í blóð borin. Auk þess að syngja spilaði hún á gítar, píanó og harmónikku.
Amma var ákveðin. Hún hafði ákveðnar skoðanir. Hún kunni hins vegar þá erfiðu list að segja skoðanir sínar án þess að vera vond. Vegna þessa bar fólk virðingu fyrir henni, og gerir enn. Ástæðan er trúlega sú að hún hafði húmor, frábæran húmor. Ég man að þegar hún hitti Helga minn í fyrsta sinn tilkynnti hún mér að ef hún væri þrjátíu árum yngri myndi hún stinga undan mér! Henni fannst hann svo sætur! Svo hundskammaði hún mömmu fyrir að hafa bara sagt hann "ágætan".
Ég er þakklát fyrir að hafa átt ömmu að. Ég er líka þakklát fyrir að eiga tvær aðrar yndislegar ömmur (og að sjálfsögðu afa líka ;)), sem enn eru á lífi.
Gleðilega páska!
Súkkulaðitilvitnun:
"I livets kager, er vennerne chokoladestykkerne."
föstudagur, apríl 14, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Til hamingju með hana ömmu gömlu, það leynir sér ekki að þú ert komin af kjarnakonum..Hvar væri maður án ömmu..
vona að þið eigið góða páska....egg....
kyskys
gledilega paska i Dk fra Moltu
Amma þín hefur greinilega verið alveg frábær manneskja, alveg eins og þú! Frábært að hún skyldi hafa sagt þetta um Helga, svona eiga ömmur að vera :o)
Gott að þið höfðuð það gott um páskana, nóg af súkkulaði og notalegheitum. Þannig var það hjá okkur líka ;o)
Vona að Elísabet fari að verða léttari og Það fjölgi um einn í fjölskyldunni.
Kveðjur,
Lísa
Skrifa ummæli