Nú er allt að verða vitlaust hérna. Eins og flestir vita er Helgi minn sá alskilningsríkasti, rólyndasti og notalegasti maður sem í heimi finnst (svolítið væmið, en satt!). Til að sjá til þess að það viðhaldist ákvað ég að færa honum slaghamar í hönd, ásamt meitli. Þetta er gert sökum þess hve óstýrlát ég sjálf hef verið undanfarið, frekar leiðinleg eitthvað. Svo til að hann fari nú ekki að steita skapi mót mér sá ég þessa leið eina færa, svona til að halda heimilisfriðinn. Reyndar finnst líka önnur ástæða fyrir hávaðanum og rykinu sem nú dreifist jafnt um allt heimilið, hún er sú að baðherbergið þarfnast lagfæringar. Þar sem jólabarnið ég er nú frekar ákveðið að upplagi varð eiginmaðurinn að fara að óskum mínum og vera búinn að setja upp heila klabbið fyrir hátíð ljóss og friðar. Ef ég hefði fengið að ráða þessu alein, hefði að sjálfsögðu verið stefnt á að vera búin með verkið fyrir fyrsta í aðventu, en ég verð víst að láta mér jólin nægja. Það er búið að fjárfesta í öllu sem til þarf til þessara framkvæmda að undanskildum blöndunartækjunum. Svo útkoman ætti að vera hið fínasta baðherbergi, ljóst og fínt.
Næstu dagar fara því væntanlega í svolítið væl um ryk hér og ryk þar og jafnvel um klósett- og vaskleysi.
sunnudagur, nóvember 26, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli