fimmtudagur, júní 21, 2007

Af verkefnavinnu, brúðkaupi og kaupæði

Þá er fyrri vika verkefnisgerðar að líða undir lok. Enn er ekki stafur kominn á blað og ég sem ætlaði helst að klára þetta í fyrri vikunni! Já, það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Mér er það ómögulegt að fara út í einhverjar aðgerðir ef pressan er ekki nógu mikil. Enn er vika til skiladags, en ég ætla eftir fremsta megni að vera búin á miðvikudaginn í næstu viku. Það verður gaman að sjá hvort það gangi, en það er hér með komið á framfæri og pressan ætti því að fara að gera vart við sig!

Við fengum þetta fallega boðskort í brúðkaup í sumar. Það er svo fallegt að ég ætla að ramma það inn og setja upp á vegg hjá mér. Ég vona að listamanninum sé sama. Boðskortið er í brúðkaup Ingu Birnu og Helga, sem við mætum að sjálfsögðu í! Listamaðurinn er Mæja, frænka Ingu Birnu. Hún er að verða heldur stórt nafn í listaheiminum heima, enda verkin hennar geggjað flott. Litirinir eru æðislegir og álfarnir hennar og fólkið meiriháttar. Ég á einmitt þrjár myndir eftir hana og vildi glöð geta keypt mér eina langa, mjóa yfir sófann minn í stofunni, ég er bara hrædd um að LÍNarbuddan leyfi það ekki.

Hérna í Danaveldi hrynja auglýsingabæklingarnir inn á gólf hjá okkur nokkrum sinnum í viku. Í einum slíkum frá Harald Nyborg rákum við augun í þetta forláta tjald á eitt stykki þúsund krónur danskar. Þar sem við erum tjaldlaus og þar með bjargarlaus í útilegur stukkum við á tilboðið. Fyrst við vorum nú búin að kaupa okkur tjald sáum við að okkur vantaði dýnur í herlegheitin, svona til að þreytt bök verði ekki þreyttari og aumir rassar ekki aumari. Svo við skelltum okkur á tvær tvöfaldar uppblásnar dýnur. Í körfuna fór líka lukt, pumpa og þessi fína, flotta picknicktaska með matarstelli fyrir fjóra, rauðvínsglösum, dúk, servíettum, kælitösku fyrir hvítvínið og stóru kælihólfi fyrir allan matinn. Nú getum við heldur betur farið að skunda okkur út á tún, í garða og í skóginn í lautarferð, eins og ekta Danir gera!

Jæja, Helgi var að pompa inn með súkkulaðið mitt, svo ég verð að fara að vinna fyrir því með pikkingum og textagerð.

Ps. Þar sem rúmum hefur heldur betur fjölgað hérna á heimilinu með kaupum dagsins ætti að vera hægt að taka á móti stærri hópum! Hehehe...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki ekta kvennmaður ætlar að kaupa tjald en kemur út með allt heilaklabbið hehe
Við Sigga Jóna pönntum hér með gistingu hjá ykkur óþarfi samt að tjalda öllu því sem til er því við þurfum í mesta lagi eina og hálfa breidd til að sofa á
kveðja Ingibjörg og co

Nafnlaus sagði...

Hvað með hárið. Er þá hægt að fara í útilegu heima hjá þér...líst vel á.

Addý Guðjóns sagði...

Hárið verður litað dökkt með búðarlit einhvern tímann á næstu dögum.
Já, ekkert mál að tjalda fyrir ævintýraþyrsa Íslendinga, hehe... En það er líka bara hægt að draga út svefnsófann, blása upp dýnurnar, rífa af stofusófanum og skella börnunum í foreldraból. Þá er pláss fyrir átta fullorðna.