Sælir félagar.
Við fjölskyldan áttum góða helgi. Við skutumst í smá túr til Sønderborgar þar sem við létum Kristrúnu, Alla og peyjana þeirra tvo dekra við okkur frá laugardegi til sunnudags. Við þökkum þeim kærlega fyrir okkur! Þau sýndu okkur bæinn sinn og keyrðu meira að segja með okkur út fyrir bæjarmörkin. Mikið afskaplega er fallegt þarna á suður Jótlandi. Allt eitthvað svo krúttlegt.
Við fullorðna fólkið höfðum það svo notalegt á laugardagskvöldið á meðan grislingarnir léku sér saman og fengu vídeópartý. Hvað er betra en rauðvín yfir Húsinu á sléttunni? Já, þið lásuð rétt! Þeir hérna í Danaveldi eru farnir að sýna Grenjað á gresjunni, eins og það var víst líka kallað, við mikinn fögnuð minn en minni fögnuð Helga míns. Þannig er nefnilega mál með vexti að þættirnir eru sýndir seinnipartinn á laugardögum og hann sér ekki fram á að ná kerlu út fyrir hússins dyr næstu helgar. Nei, við vonum að ég verði nú ekki svo forfallin.
Eins og sönnum Íslendingum sæmir horfðum við að sjálfsögðu á forkeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (ekki furða að þetta sé bara kallað Júróvísjón!), reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn þar sem álagið á síðuna var svo mikið að svo virtist sem Friðrik Ómar syngdi með rödd Regínu Óskar. Hljóðið og myndin voru ekki alveg í takt og allt hikstaði þetta. Því var Trivjal persjút tekið fram í staðinn. Ekki var nú skemmtunin síðri við spilið. Synd að maður skuli ekki spila meira, eins og þetta er skemmtilegt. Maður kemst að því hvað maður er alveg afskaplega ófróður eitthvað. Að sjálfsögðu vann Helgi minn, enda vel gefinn maður og fylgist grannt með öllu sem fram fer, hvort sem það er í almennum fréttum, íþróttum, bókmenntum eða hverju sem er öðru. Mér hefur aldrei tekist að sigra hann í spurningarspilum (reyndar alltaf spilað eldgamlar útgáfur af Trivjal, þar sem spurningarnar eru frá þeim tíma er ég lá í vöggu en hann var farinn að gefa á garðann og nefna rollur!), en það kemur að því, sjáið bara til!
Lokaslagorð kvöldsins eru því: Takið fram spilin og slökkvið á imbanum!
Eigið góðar stundir.
mánudagur, febrúar 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
það var nú lítið bara gaman að fá ykkur, vonadi hittumst við sem fyrst aftur:) kær kveðja frá jyllandi.
skora á þig kíktu inn á síðuna mína til að sjá :D
Skrifa ummæli