Fór út að kaupa pítsu í gærkvöld fyrir okkur fjölskylduna og gesti frá Sønderborg. Í geislaspilaranum í bílnum er geisladiskur með Villa Vill (ég er svo obboð gamaldags, sbr. umræðuna um Silvíu Nótt!). Eitt laganna sem hljómuðu á leiðinni frá pítsastaðnum, sem er frekar langt fyrir ofan hraðbraut, var framtíðarlagið hans (man aldrei nöfn á lögum né heldur nöfn á flytjendum og þar sem diskurinn er skrifaður er ég að sjálfsögðu ekki með neitt yfirlit yfir lögin) sem fjallar um árið 2012. Það sem mér þótti frekar fyndið var þessi framtíðarsýn sem er svolítið mikið út úr kortinu og þó ekki. Í því er sungið um hvernig fólk fær sér orðið sprautu í stað þess að fá sér í glas, býr til börn með pilluáti, að búið sé að malbika tunglið og så videre. Þessi texti er náttúrlega til gamans gerður, en þrátt fyrir það er töluvert til í honum. Tækninni hefur fleytt fram og við tölum saman í gegnum tölvur heimshorna á milli og getum meira að segja horft hvert á annað í gegnum þessi tæki. Þetta hefði Villa heitnum Vill trúlega aldrei dottið í hug að gæti gerst! Þó svo að það sé kannski ekki gert með pillum er sú tækni fyrir hendi að hægt sé að búa til börn á annan hátt en á "gamla mátann", sem betur fer. Það sem mér finnst hinsvegar skrýtið er að jafnhliða því sem tækninni fleygir fram ætti maðurinn að þroskast og udvikles, eins og maður segir á góðri íslensku. Það virðist þó ekki að fullu gerast. Reyndar mennta sig sífellt fleiri og fleiri og aukinni menntun fylgir oft víðsýni. Mér virðist þó sem fólk verði sífellt uppteknara að sjálfu sér og gleymir oft þeim sem minna mega sín. Þetta á einnig við um ættingjana. "Ég hef ekki tíma til að fara í afmælið til mömmu, ég þarf að fara í golf." Hvers lags eiginlega afsökun er þetta?! Þetta er nú bara óhaldbært dæmi, ég þekki vonandi engan sem hefur borið þetta fyrir sig þegar kemur að afmæli móðurinnar, en trúlega margir þegar kemur að barnaafmæli ;) Mér finnst rosalega gaman að fara í barnaafmæli, þar hittir maður fullt af fólki, ættingjum og vinum og jafnvel fólk sem maður hefur aldrei hitt áður. Svo gaman, svo gaman! Ekki skemmir það heldur að fá góðar kökur, brauðrétti og þar fram eftir götum!
Þó tæknin sé orðin svo þróuð sem hún er megum við nú ekki gleyma því að fara á mannamót, þó svo það sé hægt að halda fjarfundi á msn-inu! Það kemur alltaf að því að við þurfum á öðrum að halda, góðum vinum sem hægt er að treysta á.
Ég þakka þó fyrir tölvutæknina þar sem ég get talað við allt fólkið sem mér þykir vænt um á klakanum ókeypis í gegnum tölvuna þegar ekki er hægt að skreppa yfir í einn kaffibolla.
Góða helgi félagar!
föstudagur, febrúar 17, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þú þarft nú samt að fara að koma í einn kaffibolla, ég skal laga fyrir þig einn rót sterkann expresso, svo þú haldist vakandi í langan tíma....
Love you
Skrifa ummæli