mánudagur, janúar 09, 2006

Af verkefnavinnu og bjórþambi

Nú sit ég fyrir framan tölvuna og reyni að finna út úr því hvernig ég set þessa blessuðu ritgerð saman! Um ALS/MND, sem er hræðilegur sjúkdómur sem leggst á taugakerfið, på dansk. Ég er komin með fjórar línur! Jibbíííí... en á líka sirka tíu blaðsíður eftir :( Þetta hefst einhvern veginn. Það háir mér nefnilega líka að ég fékk tvær vikur til að vinna verkefnið. Ég er búin með eina og á eina eftir. Alltof langur tími! Ég er Íslendingur, ég kann ekki að skipuleggja mig þannig að ég nýti allan tímann. Ég er vön því að vinna svona verkefni með skóla og hafa mun knappari tíma! Þetta er svosem ágætis fyrirkomulag. Maður er þá ekki frá allan sólarhringinn, maður þarf bara að temja sér betri vinnuaðferðir og skipulagðari. Það hlýtur að vera komið um það leyti sem við höldum til baka á klakann að fimm árum liðnum.
Annars var helgin fín. Við fórum reyndar ekkert út vegna peyjans. Vildum halda honum inni þar sem hann er enn með svo ljótan hósta. Hann fór til dagmömmunnar í morgun en ég sæki hann snemma svo hann geti sofið inni. Hver kom þeirri þjóðtrú af stað heima að Íslendingar væru þeir einu sem létu börnin sín sofa úti? Hér eru börnin látin sofa úti, allavega hjá dagmömmum og í leikskólunum, í hvernig veðri sem er.
Ég fékk smá útivistarleyfi í gær. Ég labbaði í bakaríið til að kaupa eitthvað með kaffinu þar sem von var á gestum. Leiðin liggur framhjá Højby hallerne, sem er íþróttamiðstöðin hérna í Højby. Það var greinlegt að eitthvað var um að vera þar sem bílaplanið var fullt af bílum og hjólastæðið af hjólum (og það er töluvert stærra en bílaplanið). Þar sem maður gengur eiginlega alveg upp við húsið þegar maður fer framhjá því lítur maður alltaf inn um gluggana, það bara gerist, líka í gær. Fyrir innan gluggana sást fullt af fólki við borð að spjalla og drekka bjór. Um hádegisbil á SUNNUDEGI í íþróttamiðstöðinni! Frekar skondið, fannst mér. Þetta er eitthvað sem maður er enn að venjast. Það er hægt að kaupa bjór allan sólarhringinn alla daga vikunnar í skólanum hjá mér, þar eru meira að segja sjálfssalar ef það er búið að loka kantínunum. Það eru svosem ekki margir að þamba ölið í frímínútum, en það eru þónokkrir sem fá sér einn ískaldan í hádeginu á föstudögum, en hann er líka bara einn. Mér finnst þetta svolítið kósý, en samtímis svolítið skrýtið. Gott og það venst... Reyndar er ég orðin mjög slöpp í allri áfengisdrykkju. Mér dugar eitt rauðvínsglas eða einn öl. Eftir það vil ég bara fara að sofa og finn jafnvel fyrir smá ryði daginn eftir. Þið getið ímyndað ykkur hvernig ég verð þá eftir eitt gott fyllerí! Barneignir björguðu mér frá áfengisbölinu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló Addý og það var mikið að þú stofnaðir bloggsíðu :o) Ert frábær bloggari og segir skemmtilega frá. Svo ég ætla mér að njóta héðan í frá :o)
Við komum heim í gærkvöldi frá Heggsstöðum, vorum þar um helgina og náðum að fara á þrettándabrennu (sem var reyndar einum degi síðar en vanalega vegna veðurs) og svo í kaffi hjá ungmennafélaginu sem er orðið 90 ára. Fyrirtaks bakkelsi frá kvenfélaginu og þarna hittum við fullt af fólki og þar á meðal Gumma og Sollu frænku þína. Svo nú er ég búin að fá að sjá hana læf hehe, var bara búin að sjá mynd á netinu hjá ykkur (blessað netið...)

En ég vona að þér gangi vel með ritgerðinu, fáðu þér bara einn öllara og þá hlýtur að losna um danska málbeinið...eða skrifbeinið.

Kveðjur af klakanum,
Lísa

Nafnlaus sagði...

Hæ Addý, fín síða, gaman að fá að lesa um ævintýri ykkar í Danaveldi. Þar sem ég er líka laus undan áfengisbölinu skiptir það mig engu máli þótt vínið fljóti í kringum mig. En ég hef frétt að bjór sé drukkinn hvar sem er, líka í barnaskólunum...(Heimild: Rósa systir). Fæ samt smá hroll að lesa um verkefnavinnu og verkefnaskil. Ekki komin alveg yfir þetta ennþá. Gangi þér samt ægilega vel með þetta allt saman Addý mín og kysstu Helga frá mér.

Addý Guðjóns sagði...

Já, Gillí mín, það er ekki nóg með að það sé í barnaskólunum heldur í leikskólunum líka! Eitt það fyrsta sem við lentum í þegar Bríet Huld var að byrja í leikskólanum var fjölskyldupylsuveisla þar sem annars vegar var boðið upp á öl og hins vegar gos! Enginn ávaxtasafi og enn síður mjólk! ;) Svolítið skondið, ekki satt?