mánudagur, janúar 30, 2006

Samviskan

Ég er búin að senda verkefnið í sálfræðinni til yfirlestrar. Gerði það í gærkvöldi. Nú er bara að bíða eftir því og afhenda það, trúlega verður það ekki fyrr en á morgun, enda í góðu lagi, ég hef tíma til hádegis.

Ég ákvað að taka daginn í dag rólega fram að hádegi og setja þá í mig skurk og gera húsnæðið aftur íbúðarhæft eftir blaðaútbreiðslu og útumalltát sem fylgir ritgerðarsmíðum. Klukkan er að verða eitt og ég er enn á náttfötunum, svo atorkusemin til þrifa lætur eitthvað á sér standa. Ég eyddi morgninum í tedrykkju, Opruhgláp og hekl, hrært við samvsikubit. Ótrúlegt að maður skuli ekki geta slakað aðeins á án þess að fá samviskubit yfir því! Hvað með það þó rúmin séu óumbúin, þvotturinn í þvottakörfunni og á snúrunni og ekki búið að ganga frá eftir morgunmatinn! Það er nú ekki eins og mýsnar séu vaðandi um öll gólf og nágrannarnir farnir að rýna inn um gluggana í leit að líki. Ég sópaði ekki yfir í gær, svo þar hlýtur hundurinn að liggja grafinn. Samviska, samviska. Ég gæti ekki verið þingmaður, ég færi grenjandi í bælið á hverju kvöldi og tækist samt ekki að væla mig í svefn. Reyndar var því einhvern tímann spáð fyrir mömmu að elsta barnið hennar ætti eftir að verða þingmaður. Trúlega hefur spákonan bara verið að leggja áherslu á það að þetta elsta barn væri heldur ákveðin og léti oft mikið í sér heyra, hvort sem fólki líkaði vel eða illa. Enn er ekki öll von mömmu um barn í stjórnmálum úti, engin veit sína ævi fyrr en öll er. Reyndar hef ég heyrt að sörf á hinu háa Alþingi séu ekki eins spennandi og þau líta út fyrir að vera í sjónvarpinu (aha!). Enda er það með útsendingar frá Alþingi eins og hina raunveruleikaþættina að það eru einungis sýnd þau atriði þar sem eitthvað er að gerast. Það vill þó þannig til að alltaf þegar ég kveikti á sjónvarpinu og það var verið að sýna frá Alþingi var alltaf einskonar stillimynd, reyndar sást einn og einn þingmaður á vappi um salinn, en á skjánum stóð eitthvað á þá leið að það væri hádegishlé eða þvíumlíkt. Ekki svo að skilja að ég sé að gera lítið úr hinu háa Alþingi, það hlýtur að vera erfitt að taka ákvarðanir sem varða heila þjóð, nákvæmlega þess vegna gæti ég ekki setið þar.
Þar til næst...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú ekki slæmt að vera þingmaður, þeir skella sér bara í ræktina á vinnutíma og stilla sjónvarpið á alþingisumræður (hinum líkamsræktardúddunum til mikilla vonbrigða!!) og missa þá ekki af neinu!!! Enda eru þeir nokkurn tímann á staðnum þvílíkt ráp og rugl frameftir öllu, svo kvartar maður yfir börnunum sem geta ekki setið kyrr í skólanum...!!
Þú þarft greinilega að losna við þrifnaðarsamviskubitið, það er sko lúxus að vera laus við það!!
kv. Lilja

Nafnlaus sagði...

Þingmaður já....áður en ég lýsi yfir von minni til þín um þingmannssæti vil ég vita fyrir hvaða flokk þú sætir?? Ég er eins og þú með þrifnaðarsamvisku sem mér var innrætt strax í æsku af móður minni. Líður best með allt hreint en hef samt reynt að slaka á þessu síðustu árin. Og hvar er Helgi....er hann farinn að vinna?

Addý Guðjóns sagði...

Af sjö systkinum var Helgi sá eini sem ekki fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegt herbergi, svo... Það er hægt að orða það þannig að hann kann að taka til, en þrif eru ekki á topp tíu. Hjá okkur hefur það verið þannig síðan við fórum að búa að hann fer út með börnin (eftir að þau fæddust) á meðan ég sé um þrifin. Ágætis fyrirkomulag og allir sáttir!

Nafnlaus sagði...

Ég sit hér við tölvuna og er aldrei þessu vant ekki með þrifnaðarsamviskubit því ég var að skúra! Verðlauna mig með smá internetflakki ;o) Kannast vel við þessa samvisku sem er sífellt að finna upp eitthvað sem maður gæti verið að gera í staðinn fyrir það sem maður er að gera þá stundina. Ég sit kannski að prjóna og man þá eftir sængurverunum sem ég er hálfnuð að sauma, rykinu í svefnherberginu, þvottinum niðri í kjallara og því að ég verð að ákveða hvað af þessu ég ætla að gera áður en Ása Jenný vaknar! Alltaf í tímahraki en hef samt allan heimsins tíma heima hjá mér...undarlegur assgoti.
Lísa