Það er svo furðulegt með mann að þegar maður sest að á erlendri grundu stækkar Íslendingurinn um marga metra (sem útskýrir væntanlega hærri tölu á voginni;)). Í gær fór ég á svona fællesbibliotek í skólanum til að finna bók sem ég var að leita að. Þetta er að sjálfsögðu ekki í frásögu færandi, nema fyrir þær sakir að þarna niðri fannst mér eins og ég væri komin inn í Árnagarð. Reyndar var ekki svona mikið af bókum í lesstofunni í garðinum, en þær voru náttúrlega á Árnastofnun, sem ég fékk nú að heimsækja nokkrum sinnum til að garfa í ljósritum af gömlum handritum. Nema hvað, þarna voru eldgamlir stólar og eldgamlar hillur, svona svolítið einkennandi fyrir Árnagarðinn. Ekki nóg með það heldur var þarna að finna íslenskar bækur, heilan rekka af þeim. Ritsafn Halldórs Laxness var þarna sem og ritsafn Gunnars Gunnarssonar (að sjálfsögðu) reyndar var það á dönsku, einhverra hluta vegna... Það sem sló mig þó mest var að í hillunni þar sem Nordisk historie var voru bækurnar langflestar á íslensku! Þetta eru Konungasögurnar, Byskupasögurnar og Íslendingasögurnar ásamt fleiri sögum. Það voru sem sagt Íslendingar sem rituðu þessar sögur. Án okkar væru þær trúlega ekki til á prenti! Kannski er ástæðan góð geymsluskilyrði landans á árum áður þar sem engu var hent og allt nýtt, eins og til dæmis í sniðagerð og í fyllingar í rúmin. Þökk sé Árna Magnússyni heitnum. Norðurlöndin eiga honum mikið að þakka. Ekki bara honum heldur að sjálfsögðu öllum þeim sem munduðu vel tálgaðan fjaðurstaf með jurtaseyði á kálfaskinn inni í dimmum fjárhúsum heldrafólks á Íslandi fátæktarinnar. Hann Árni vann víst ekki sóðaverkin sjálfur.
Frá því við komum hingað til Danmerkur í sumar hafa Íslendingar prýtt síður Ugeavisen, sem er fréttablað sem kemur út hérna í Óðinsvéum einu sinni í viku, fjórum sinnum. Björk, Sterling, Magasin og Sigurrós. Frekar flott ekki satt?! Við erum best...
þriðjudagur, janúar 24, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Er þá nokkuð langt að bíða að það komi mynd af ykkur í ugeavisen!!
kv. Lilja
Danir hafa greinilega ekki eins mikla minnimáttarkennd gagnvart Íslendingum og Norðmenn því þar þykjast þeir sjálfir hafa skrifað þessar sögur og benda á að Íslendingarnir hafi komið frá Noregi og séu því auðvitað norskir...svona meðan það er eitthvað sem hægt er að monta sig af.
Skrifa ummæli