sunnudagur, janúar 01, 2006

Áramótanýjungar

Þá er komið að því. Ég ætla að prófa mig áfram á öldum Netmiðlanna í því sem landinn kallar blogg. Þetta er meira til gamans gert svo þess er ekki að vænta að eitthvað gáfulegt komi upp úr krafsinu. Þetta er meira í líkingu við sjálfshreinsun. Að sjálfsögðu gæti ég haldið venjulega læsta dagbók og sagt frá mínum dýpstu leyndarmálum en það er bara svo mikið auðveldrara orðið að setjast fyrir framan tölvuna til að tjá sig en að munda penna. Reyndar veit enginn af þessari fyrirhuguðu tilraun minni, nema minn heittelskaði, svo það er ekkert víst að þetta komi fyrir almenningssjónir að einhverju ráði. Kannski maður segi einhverjum frá þessu. Kannski.

Áramótin hér í Danaveldi voru bara æði góð. Frekar róleg í faðmi góðra vina, þeirra Palla, Rósu og barna. Við borðuðum fylltar grísalundir. Fylltar með fyllingu sem við spunnun sjálf og reyndist svona afbragðs góð, með basiliku, hvítlauk, döðlum, furuhnetum, grófu salti, pipar og dash af ólífuolíu. Umm... svo gerði Helgi sænskar hrásteiktar kartöflur og tvennslags sósur, gráðostasósu og brúna kryddsósu fyrir börnin. Góður matur og gott fólk. Að sjálfsögðu var gamla árið sprengt á brott. Reyndar var erfitt að sjá alla flugeldana fyrir gufu frá öðrum flugeldum og mistri, en við sáum okkar, sem að sjálfsögðu báru af!
Það er hins vegar sorglegt með Danann. Hann tekur jólin niður fyrir áramót! Ég var nú svo einföld að halda að jólin væru alls staðar þrettán dagar, þó svo við gerum kannski mest úr því! En þegar búið er að taka niður jólatré og jólaskreytingar á opinberum stöðum þann 3. í jólum missir maður nú eiginlega andlitið! Allavega fram yfir áramót! Þeir voru meira að segja svo stressaðir í þessu öllu að það var ekki hægt að fá jólaservíettur á Þorláksmessu. Jólabarnið ég er ekki alveg sátt við svona óvirðingu við jólahaldið. Nýju landi fylgja nýir siðir.
Sem við látum verða niðurlagið í þessu fyrsta bloggi mínu. Njótið vel...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hæ sæta, velkomin í heim bloggaranna! Gleðilegt nýtt ár og allt svoleiðis skvís!!! xxx Guðrún

Nafnlaus sagði...

Heib beib welkome to the new age haha hlakka til að fylgjast með tölvugúrú...
Kv
Hronnsla